Alvotech tryggir aukið aðgengi að fjármagni og greiðari leið að skráningu á NASDAQ

Alvotech og sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II, sem er skráð félag á NYSE hlutabréfamarkaðinum undir auðkenninu “OACB” tilkynntu í desember 2021 um að gerður hefði verið samningur um fyrirhugaðan samruna félaganna. Eftir að eftirlitsaðilar í Bandaríkjunum og á Íslandi og hluthafar OACB hafa staðfest samrunann er gert ráð fyrir að hlutabréf í Alvotech verði skráð á NASDAQ hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum og á First North markaðinn á Íslandi undir auðkenninu “ALVO”. Félögin tryggðu sér nýlega aðgang að fjármögnun til að mæta mögulegu útflæði vegna innlausna hluthafa í OACB, með samningum við Yorkville Advisors og Sculptor Capital Management.

“Við teljum að þessar fjármögnunarleiðir muni styrkja fjármögnun Alvotech að loknum samrunanum við OACB. Varðandi valkvæðan rétt til útgáfu nýrra bréfa, þá er markmið okkar að nýta fjármögnunina að hámarki þeirrar fjárhæðar sem nemur mögulegri innlausn fjárfesta í OACB. Þessi leið mun einnig auka markaðsviðskipti með bréf í félaginu,”

Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.

Yorkville Advisors, YA II PN („Yorkville“) hefur skuldbindið sig til að kaupa hlutabréf af Alvotech þegar það hefur verið skráð á markað (á ensku nefnt „Standby Equity Purchase Agreement“ eða SEPA). Samkvæmt samningnum hefur Alvotech rétt, en er ekki skuldbundið, til að selja Yorkville hlutabréf, næstu þrjú árin. Þessi fjármögnunarleið veitir Alvotech aðgang að allt að 19,5 milljörðum króna (150 milljónum Bandaríkjadala).

Sculptor Captial Management skuldbindur sig til að veita Alvotech aðgengi að lánum að fjárhæð 9,8 – 16,2 milljarða króna (75 – 125 milljón Bandaríkjadala). Endanleg fjárhæð ræðst af því fjármagni sem rennur til Alvotech við sameiningu OACB og Alvotech.

Þannig hefur Alvotech tryggt sér aðgang að því fé sem gert var ráð fyrir að rynni til félagsins við samrunann við OACB þegar tilkynnt var um skráningu á markað fyrir s.l. áramót, 32,5 milljarðar króna (250 milljónir Bandaríkjadala), en því til viðbótar er svo nefnd PIPE fjármögnun, það er bein hlutafjáraukning frá alþjóðlegum og innlendum fjárfestum að fjárhæð 22,8 milljarðar króna (175 milljónir Bandaríkjadala).

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Alvotech.

Um Alvotech

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech var stofnað árið 2013 og hefur það að markmiði að verða leiðandi í framleiðslu og dreifingu líftæknihliðstæðulyfja. Allir þættir í framleiðslunni eru í höndum fyrirtækisins sjálfs til að tryggja hámarksgæði. Höfuðstöðvar og hátæknisetur Alvotech, sem staðsett er í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri, eru búin fullkomnustu tækjum og búnaði til þróunar og framleiðslu líftæknilyfja.

Nánari upplýsingar á ensku: https://www.alvotech.com/newsroom/alvotech-improves-access-to-capital-and-streamlines